Hoppa í meginmál
Persónuleg málefni

Réttindi barna og einelti

 

Börn hafa réttindi sem ber að virða. Börn og ungmenni á aldrinum 6-16 ára skulu stunda grunnskólanám.

Foreldrum ber að vernda börn sín gegn ofbeldi og öðrum ógnum.

Réttindi barna

Börn eiga rétt á að þekkja báða foreldra sína. Foreldrum er skylt að vernda börn sín gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og öðrum ógnum.

Börn eiga að fá menntun í takt við getu sína og áhugasvið. Foreldrar ættu að ráðfæra sig við börn sín áður en þeir taka ákvarðanir sem snerta þau. Börn ættu að fá meira að segja um sín mál eftir því sem þau eldast og þroskast.

Flest slys á börnum yngri en 5 ára verða inni á heimilinu. Öruggt umhverfi og eftirlit foreldra dregur mjög úr líkum á slysum á fyrstu æviárunum. Til að koma í veg fyrir alvarleg slys þurfa foreldrar og aðrir sem annast börn að vera meðvitaðir um algengar orsakir slysa ásamt líkamlegum, andlegum og tilfinningalegum þroska barna, sem er misjafnt miðað eftir aldri þeirra. Börn hafa almennt ekki þroska til að meta og takast á við hættur í umhverfi sínu fyrr en þau eru um 10-12 ára.

Umboðsmaður barna á Íslandi er skipaður af forsætisráðherra. Hlutverk hans er að gæta að og efla hagsmuni, réttindi og þarfir allra barna yngri en 18 ára á Íslandi.

Réttindi barna

Myndband um réttindi barna á Íslandi.

Myndböndin eru unnin af Amnesty á Íslandi og Mannréttindaskrifstofu Íslands. Fleiri myndbönd má finna hér.

Tilkynnið ávallt ofbeldi gagnvart börnum

Samkvæmt íslenskum barnaverndarlögum ber öllum að tilkynna ef grunur leikur á að barn sé beitt ofbeldi, verði fyrir áreitni eða búi við óviðunandi aðstæður. Tilkynna skal til lögreglu í gegnum neyðarnúmerið 112 eða til barnaverndarnefnda.

Markmið barnaverndarlaga er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna eigin heilsu og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Barnaverndarlögin taka til allra barna innan yfirráðasvæðis íslenska ríkisins.

Börn eru í aukinni hættu á misnotkun á netinu. Hægt er að tilkynna um ólöglegt og óviðeigandi efni á netinu sem er skaðlegt börnum í gegnum ábendingalínu Barnaheilla.

Tilgreint er í lögum hversu lengi börn að 16 ára aldri megi vera úti á kvöldin án eftirlits fullorðinna. Þessum útivistarreglum er ætlað að tryggja að börn alist upp í öruggu og heilbrigðu umhverfi og fái nægan svefn.

Börn undir 12 ára aldri á almannafæri

Börn undir tólf ára aldri skulu að vera í fylgd með fullorðnum ef þau eru úti á almannafæri eftir klukkan 20:00.

Frá 1. maí til 1. september mega þau vera úti á almannafæri til klukkan 22:00. Aldursmörk þessara reglna miða við fæðingarár en ekki fæðingardag.

Hér finnur þú upplýsingar um útivistartíma barna á sex tungumálum. Tilgreint er í lögum hversu lengi börn að 16 ára aldri megi vera úti á kvöldin án eftirlits fullorðinna. Þessum útivistarreglum er ætlað að tryggja að börn alist upp í öruggu og heilbrigðu umhverfi og fái nægan svefn.

Unglingar

Ungt fólk á aldrinum 13-18 ára skal hlýða fyrirmælum foreldra sinna, virða skoðanir annarra og fara að lögum. Unglingar verða lögráða við 18 ára aldur og fá þar með rétt til að ráða eigin fjármálum og öðrum persónulegum högum. Það þýðir að þeir bera ábyrgð á eignum sínum, geta ákveðið hvar þeir vilja búa en missa rétt til framfærslu foreldra sinna.

Börn og ungmenni á aldrinum 6-16 ára þurfa að stunda grunnskólanám en það er ókeypis. Grunnskólanámi lýkur með prófum og eftir það er hægt að sækja um í framhaldsskóla. Innritun á haustönn í framhaldsskólum fer fram á netinu og er umsóknarfrestur í júní ár hvert. Innritun nemenda á vorönn fer ýmist fram í skólanum sjálfum eða á netinu.

Ýmsar upplýsingar um sérskóla, sérdeildir, námsbrautir og önnur námsframboð fyrir fötluð börn og ungmenni er að finna í Fræðslugátt Menntamálastofnunar.

Grunnskólabörn má einungis ráða til að vinna létt störf. Börn yngri en þrettán ára mega aðeins taka þátt í menningar- og listaviðburðum og íþrótta- og auglýsingastarfi og einungis að fengnu leyfi Vinnueftirlitsins.

Heimilt er að ráða börn á aldrinum 13-14 ára til að vinna létt störf sem ekki eru talin hættuleg eða líkamlega erfið. Þeir sem eru á aldrinum 15-17 ára mega vinna allt að átta tíma á dag (fjörutíu tíma á viku) í skólafríum. Börn og unglingar mega ekki vinna á nóttunni.

Flest stærri sveitarfélög reka vinnuskóla eða unglingastarf í nokkrar vikur á hverju sumri fyrir elstu grunnskólanemendurna (á aldrinum 13-16 ára).

Börn á aldrinum 13 - 16 ára á almannafæri

Börn á aldrinum 13 til 16 ára mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22:00, án fylgdar fullorðinna, nema á heimleið frá viðurkenndum viðburði á vegum skóla, íþróttasamtaka eða ungmennafélags.

Á tímabilinu 1. maí til 1. september er börnum heimilt að vera utandyra í tvo tíma til viðbótar, til miðnættis. Aldursmörk þessara reglna miða við fæðingarár en ekki fæðingardag.

Hvað varðar vinnu þá er unglingum almennt ekki heimilt að vinna vinnu sem er umfram líkamlega eða andlega getu þeirra eða sem hefur í för með sér áhættu fyrir heilsu þeirra. Þeir þurfa að kynna sér áhættuþætti í vinnuumhverfinu sem geta ógnað heilsu og öryggi og því þarf að veita þeim viðeigandi stuðning og þjálfun. Hér má finna meiri upplýsingar varðandi unglinga og vinnu.

Einelti

Einelti er endurtekið ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, og/eða stöðug áreitni, af hálfu eins eða fleiri einstaklinga gegn öðrum.

Einelti á sér stað milli einstaklings og hóps eða milli tveggja einstaklinga. Einelti getur verið munnlegt, félagslegt, andlegt og líkamlegt. Það getur verið í formi uppnefna, slúðurs eða ósannra sagna um einstakling eða hvatning til fólks um að hunsa ákveðinn einstakling. Einelti felur einnig í sér að ítrekað er hæðst að einhverjum t.d. vegna útlits hans, þyngdar, menningar, trúarbragða, húðlitar, fötlunar o.s.frv. Fórnarlamb eineltis getur fundið sig óvelkomið og útilokað úr hópi sem það hefur ekkert val um að umgangast, t.d. bekkjarfélaga sína eða fjölskyldu. Einelti getur einnig haft varanlegar skaðlegar afleiðingar fyrir gerandann.

Það er skylda skóla að bregðast við einelti og hafa margir grunnskólar sett upp aðgerðaáætlanir og fyrirbyggjandi aðgerðir við einelti.

Gagnlegir hlekkir

Foreldrum ber að vernda börn sín gegn ofbeldi og öðrum ógnum.