Hoppa í meginmál
Samgöngur

Ökuskírteini

Áður en þú ekur bíl á Íslandi skaltu ganga úr skugga um að þú hafir gilt ökuskírteini.

Gilt ökuskírteini annars staðar frá, sé það með skírteinisnúmeri, ljósmynd, dagsetningu og latneskum stöfum, gerir þér kleift sem ferðamanni að aka löglega á Íslandi í stuttan tíma.

Gildi erlendra ökuskírteina

Ferðamenn geta dvalið á Íslandi í allt að þrjá mánuði án dvalarleyfis. Á þeim tíma mega þeir aka hér á landi að því gefnu að viðkomandi hafi gilt ökuskírteini og hafi náð löglegum ökumannsaldri á Íslandi, sem er 17 ára fyrir bíla.

Ef erlent ökuskírteini er ekki ritað með latneskum stöfum, þarf einnig að fylgja því alþjóðlegt ökuskírteini, sem er þá sýnt samhliða því almenna.

Að fá íslenskt ökuskírteini

Til að dvelja lengur en þrjá mánuði á Íslandi þarf dvalarleyfi. Hægt er að sækja um íslenskt ökuskírteini í allt að sex mánuði eftir komu til landsins. Eftir það er svo gefinn einn mánuður í það að breytingin fari í gegn.

Þannig að í raun gildir erlent ökuskírteini í allt að sjö mánuði (óháð því hvort umsókn um íslenskt skírteini er send inn eða ekki).

Ef þú ert frá EES/EFTA landi, Færeyjum, Bretlandi eða Japan og ökuskírteinið þitt er gefið út þar, þarftu ekki að endurtaka bílpróf. Að öðrum kosti þarf að taka bæði bóklegt og verklegt bílpróf til að fá íslenskt ökuskírteini.

Frekari upplýsingar

Á  island.is er að finna frekari upplýsingar um erlend ökuskírteini á Íslandi og hvernig hægt er að skipta þeim yfir í íslensk, eftir því hvaðan þú ert.

Lestu meira hér um reglur um ökuskírteini á Íslandi. 29. grein fjallar um gildi erlendra ökuskírteina á Íslandi. Hafðu samband við sýslumann til að fá frekari upplýsingar um hvaða reglur gilda um ökuréttindi. Umsóknareyðublöð um ökuskírteini fást hjá sýslumönnum og lögreglumönnum.

Ökunám

Ökukennsla á venjulega fólksbíla má hefjast við sextán ára aldur en ökuréttindi má aðeins veita við sautján ára aldur. Löglegur aldur fyrir létt bifhjól er 15 ára og 16 ára fyrir dráttarvélar.

Vegna ökukennslu þarf að hafa samband við löggiltan ökukennara. Ökukennari leiðir nemanda í gegnum bóklega og verklega hluta námsins og vísar þeim í ökuskóla þar sem bóklegt nám fer fram.

Ökumenn geta æft akstur á ökutæki í fylgd með öðrum en ökukennara að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Nemandi þarf að hafa lokið að minnsta kosti fyrsta hluta bóklega námsins og hafa að mati ökukennara hlotið næga verklega þjálfun. Sá sem sér um æfingaakstur með ökunema þarf að hafa náð 24 ára aldri og hafa að minnsta kosti fimm ára akstursreynslu. Að auki þarf hann að hafa leyfi lögreglustjórans í Reykjavík eða sýslumanns annars staðar.

Listi yfir ökuskóla

Ökupróf

Ökuréttindi eru veitt að loknu ökunámi hjá ökukennara og í ökuskóla. Löglegur aldur til aksturs á Íslandi er 17 ára. Til að fá leyfi til að taka bílpróf þarf að sækja um ökuréttindi hjá sýslumanni eða hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Hægt ert að sækja um hvar sem er á Íslandi.

Ökupróf eru reglulega framkvæmd af Frumherja sem er með þjónustustaði um allt land. Frumherji skipuleggur próf fyrir hönd Samgöngustofu. Þegar ökunemi fær próftökuheimild tekur hann skriflegt próf. Verklegt próf má aðeins taka að loknu skriflegu prófi. Nemendur mega vera með túlk með sér í báðum prófunum en þurfa að greiða fyrir slíka þjónustu sjálfir.

Samgöngustofa

Ökukennarafélag Íslands

Ökupróf hjá Frumherja

Gerðir ökuleyfa

Almenn ökuréttindi (gerð B) leyfa ökumönnum að stjórna venjulegum bílum og ýmsum öðrum farartækjum.

Til að öðlast aukin ökuréttindi, svo sem réttindi til að aka vörubílum, rútum, tengivögnum og fólksflutningabifreiðum í atvinnuskyni, þarf að sækja ákveðin námskeið í ökuskóla.

Leyfi til að stjórna vinnuvélum eru fengin hjá Vinnueftirliti ríkisins.

Ökubann

Ef þú ert sviptur ökuréttindum í meira en ár verður þú að taka bílprófið aftur.

Ökumenn með bráðabirgðaskírteini sem hafa verið sviptir ökuréttindum eða verið settir í akstursbann þurfa að fara á sérstakt námskeið og standast bílpróf til að fá aftur ökuréttindi.

Gagnlegir hlekkir

Áður en þú ekur bíl skaltu ganga úr skugga um að þú hafir gilt ökuskírteini.