Læknisskoðun vegna dvalarleyfis
Dvalarleyfisumsækjendur frá tilteknum löndum þurfa að gangast undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins, samkvæmt lögum og fyrirmælum landlæknisembættisins.
Dvalarleyfi verður ekki veitt umsækjanda sem fer ekki í læknisskoðun þegar þess er krafist af Landlæknisembættinu og aðgangur umsækjanda að almannatryggingakerfinu ásamt öðrum réttindum verða ekki virkjuð.
Tilgangur læknisskoðunar
Tilgangur læknisskoðunar er að skima fyrir smitsjúkdómum og veita viðeigandi læknismeðferð. Ef umsækjandi greinist með smitsjúkdóm þýðir það ekki að umsókn hans um dvalarleyfi verði synjað, heldur gerir það heilbrigðisyfirvöldum kleift að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóms og veita viðkomandi nauðsynlega læknismeðferð.
Dvalarleyfi verður ekki gefið út til umsækjanda sem fer ekki í læknisskoðun þegar þess er krafist af Landlæknisembættinu. Það hefur líka þær afleiðingar að aðgangur umsækjanda að almannatryggingakerfinu verður ekki virkur. Jafnframt verður dvöl umsækjanda hér á landi ólögmæt og getur umsækjandi því átt von á synjun um komu til landsins eða brottvísun.
Hver greiðir kostnað við læknisskoðun?
Vinnuveitandi eða umsækjandi dvalarleyfis stendur straum af kostnaði vegna læknisskoðunar. Ef vinnuveitandi krefst sérstakrar læknisskoðunar ber hann ábyrgð á kostnaði. Þú getur lesið meira um þetta hér.