Hoppa í meginmál
Móttaka flóttafólks

Samræmd móttaka flóttafólks

Tilgangur samræmdrar móttöku er að auðvelda einstaklingum og fjölskyldum að taka sín fyrstu skref á Íslandi og styrkja þau til að nýta styrkleika sína við að koma sér fyrir í nýju samfélagi. Ennfremur að tryggja samfellu í þjónustu og samræma aðkomu allra þjónustuaðila.

Hvað er samræmd móttaka?

Samræmd móttaka flóttafólks byggir á þremur meginstoðum þar sem eftirfarandi aðilar gegna veigamiklu hlutverki:

  • Móttökusveitarfélög annast umfangsmeiri félagsþjónustu og ráðgjöf, útvega leiguhúsnæði, halda utan um gerð einstaklingsmiðaðra áætlana og málstjórn samkvæmt kröfulýsingu og samningi við félagsmálaráðuneytið.
  • Vinnumálastofnun annast atvinnumiðlun, náms- og starfsráðgjöf, samfélagsfræðslu, íslenskukennslu og aðra virkni.
  • Fjölmenningarsetur veitir sveitarfélögum faglegan stuðning og ráðgjöf, gerir leiðbeiningar, gátlista og verkferla og stendur fyrir fræðslu og samráði milli þeirra aðila sem koma að verkefninu um samræmda móttöku. Þá hefur Fjölmenningarsetur það hlutverk að veita flóttafólki upplýsingar og para saman flóttafólk og móttökusveitarfélög.

Fyrir hverja er samræmd móttaka?

Samræmd móttaka stendur öllum einstaklingum til boða sem hlotið hafa alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum á Íslandi.

Tilgangur hennar er að auðvelda einstaklingum og fjölskyldum að taka sín fyrstu skref á Íslandi og styrkja þau til að nýta styrkleika sína við að koma sér fyrir í nýju samfélagi. Ennfremur að tryggja samfellu í þjónustu og samræma aðkomu allra þjónustuaðila.

Hvernig er ferlið?

  1. Eftir að alþjóðleg vernd/mannúðarleyfi er veitt er boðið upp á upplýsingaviðtal hjá Fjölmenningarsetri þar sem fram fer þarfagreining, upplýsingagjöf um verkefnið og notanda er boðin pörun við móttökusveitarfélag.
  2. Ef óskað er eftir þátttöku í verkefninu sendir Fjölmenningarsetur tilvísun til móttökusveitarfélags og tengir notanda við málstjóra.

Móttökusveitarfélag

Móttökusveitarfélagið útvegar húsnæði til leigu, undirbýr íbúð og útvegar innbú. Stefnt skal að því að notandi geti flutt inn í húsnæðið innan átta vikna frá því að hann samþykkir þátttöku í samræmdri móttöku.

Ársskýrsla samræmdrar móttöku (skapalón)

Samkvæmt kröfulýsingu: „Þjónusta móttöku sveitarfélaga við flóttafólk“, sem gefin var út af Félagsmálaráðuneytinu 2022, ber þjónustusala að standa skil á upplýsingum um rekstur og þjónustu starfseminnar til þjónustukaupa og skrá umbeðnar upplýsingar.

„Þjónustusali ber ábyrgð á að senda þjónustukaupa ársskýrslu ótilkvaddur, 12 mánuðum eftir undirritun samnings. Í ársskýrslu skal meðal annars eftirfarandi koma fram:

  • Fjöldi notenda þjónustunnar á liðnu ári, þ.e. hve margir nýir notendur koma í þjónustu, hve margir flytjast í annað sveitarfélag/erlendis og hve margir teljast hafa lokið samræmdri móttöku eða hætt þátttöku.
  • Upplýsingar um aldursskiptingu og kyn notenda.
  • Upplýsingar um fjölskyldugerð og fjölda barna á hverju heimili.
  • Upplýsingar um upprunaland notenda.
  • Virkni notenda, s.s. atvinnuþátttöku, fjöldi notenda í almennu námi, íslenskunámi, samfélagsfræðslu eða öðru námi.
  • Þjónustuþættir notenda, s.s. fjárhagsaðstoð, stuðningsþjónusta eða félagsleg ráðgjöf.
  • Tölfræðilegar upplýsingar um hvort settum markmiðum í einstaklingsbundnum áætlunum hafi verið náð.
  • Aðrar þær upplýsingar sem talist geta til mikilvægra upplýsinga er snúa að þjónustu við notendur og þeirri samræmdu þjónustu sem veitt var, þar á meðal upplýsingar um framgang einstaklingsáætlana.

Til viðbótar er beðið um upplýsingar um fjölda stöðugilda og starfsmanna við samræmda móttöku flóttafólks hjá sveitarfélagi.

Í ársskýrslu skulu ekki koma fram nöfn eða kennitölur notenda, en halda skal til haga öllum frumgögnum að baki þeim upplýsingum sem birtast í ársskýrslu svo hægt sé að gera úttekt á réttmæti þeirra. Fjölmenningarsvið Vinnumálastofnunar skal senda sveitarfélögum sem hafa samning um samræmda móttöku, staðlað form fyrir ársskýrslu.

Hér er fyrirmynd (skapalón) að ársskýrslu þar sem óskað er eftir upplýsingum um framkvæmd samræmdrar móttöku flóttafólks fyrir hönd sveitarfélagsins.

Ársskýrsla skal fyllt út af ábyrgðarmanni þjónustu og samskipta við ráðuneytið.

Málstjóri

Notandi fær skipaðan málstjóra sem hefur eftirfarandi hlutverk:

  • Er tengiliður við móttökusveitarfélagið og starfar hjá félagsþjónustu þess.
  • Boðar notanda í fyrsta viðtal, eins fljótt og mögulegt er, þar sem fram fer grunnmat á þörfum viðkomandi.
  • Tengir notanda við helstu kerfi s.s. Vinnumálastofnun (m.a. íslenskunámskeið og samfélagsfræðsla), menntakerfið (leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla), heilbrigðiskerfið, Rauða Krossinn.

Stuðningsáætlun, ráðgjöf og utanumhald

Notandi og málstjóri vinna saman stuðningsáætlun, með þarfir og tímasett persónuleg markmið að leiðarljósi. Tilgangur hennar er að efla getu og færni til að verða virkur þátttakandi í samfélaginu. Áætlun er endurskoðuð á fjögurra mánaða fresti (að lágmarki) og fær notandi stuðning málstjóra við að fylgja henni eftir. Stuðningsætlun inniheldur virkniúrræði, t.d. íslenskunám, samfélagsfræðslu, nám, starfsþjálfun og/eða atvinnuþátttöku. Í henni er einnig tilgreind ráðgjöf eða meðferð annarra fagaðila (t.d. sálfræðinga) og sálfélagslegur stuðningur sem þörf gæti verið fyrir.  

Sá aukni stuðningur sem samræmd móttaka felur í sér kemur til viðbótar við rétt notanda (hvort sem hann er þátttakandi í samræmdri móttöku eða ekki) til félagslegrar ráðgjafar og fjárhagsaðstoðar samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga (nr. 40/1991) og reglum viðkomandi sveitarfélags. Aukinn stuðningur skal taka mið af leiðbeinandi reglum fyrir sveitarfélög um móttökuþjónustu og aðstoð við félagslega þátttöku flóttafólks sem velferðarráðuneytið gaf út árið 2014. 

Aukinn stuðningur málstjóra getur t.d. falið í sér eftirfarandi:

  • Gerð umsóknar um bankareikning og rafræn skilríki 
  • Skráningu á heilsugæslustöð og læknisheimsóknir  
  • Gerð umsókna um húsnæðisbætur og sérstakan húsnæðisstuðning, aðstoð við að tryggja hita, rafmagn og internet á heimili notanda og aðstoð við að kaupa símkort og strætókort. 
  • Ef fjölskyldusameining við ættingja er fyrirhuguð leiðbeinir málstjóri notanda um umsóknarferlið. 

Leiðbeiningar vegna einstaklingsmiðaðrar áætlunar fyrir samræmda móttöku flóttafólks sem og gátlista og skapalón má finna hér að neðan:

Einstaklingsmiðuð áætlun (PDF)

Gátlisti og skapalón (DOCX)

Stuðningur vegna barna

Stuðningur skal alltaf taka mið af fjölskylduaðstæðum notanda og koma til móts við sérstakar þarfir barna. Hann skal taka mið af réttindum þeirra og mikilvægi þess að þau hafi tækifæri á að taka virkan þátt í samfélaginu. Þetta er m.a. gert í gegnum þjónustu frístundaheimila, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla eða önnur menntaúrræði. Einnig skal leggja áherslu á þátttöku barna í tómstunda og félagsstarfi.

Aukinn stuðningur vegna barna getur t.d. falið í sér:

  • Skráningu barna í framhaldsskóla, grunnskóla, leikskóla og frístund.
  • Gerð samnings um sérkennslu og móðurmálskennslu.
  • Viðveru á samráðsfundi með skóla og leikskóla áður en skólaganga hefst.
  • Að útvega grunnpakka fyrir skólagöngu svo sem skólatösku og pennaveski.

Yfirlit: Samræmd móttaka flóttafólks

Myndbönd

Flóttafólk á Íslandi og samræmd móttaka flóttafólks

Fleiri myndbönd sem tengjast samræmdri móttöku flóttafólks má finna hér í verkfærakistunni.

Upplýsingabæklingar fyrir flóttafólk

Gerðir hafa verið upplýsingabæklingar fyrir flóttafólk á ýmsum tungumálum. Þá má finna hér í verkfærakistunni.

Gagnlegir hlekkir og skjöl