Hoppa í meginmál
Persónuleg málefni

Fjölskyldugerðir

Í fjölbreytileika nútímasamfélags eru til ýmsar gerðir af fjölskyldum. Þar má nefna stjúpfjölskyldur, fjölskyldur með einstætt foreldri, fjölskyldur með foreldra af sama kyni, kjörfjölskyldur og fósturfjölskyldur.

Fjölskyldugerðir

Einstætt foreldri er karl eða kona sem býr ein með barni sínu eða börnum. Skilnaðir eru algengir á Íslandi. Einnig er algengt að einhleyp manneskja eignist barn án þess að vera giftur eða í sambúð.

Þetta þýðir að fjölskyldur með aðeins eitt foreldri og barn/börn, sem búa saman, eru algengar á Íslandi.

Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldri sínu geta foreldrarnir samið um að hitt foreldrið sinni framfærsluskyldu sinni með því að greiða meðlag til lögheimilisforeldris. Einstæðir foreldrar eiga fá hærri barnabætur og greiða lægri dagvistargjöld en fólk í sambúð eða hjúskap.

Stjúpfjölskyldur samanstanda af barni eða börnum, kynforeldri og stjúpforeldri eða sambúðarforeldri sem hefur tekið að sér foreldrahlutverk.

Í fósturfjölskyldum skuldbinda fósturforeldrar sig til að sjá um börn í lengri eða skemmri tíma, allt eftir aðstæðum barnanna.

Kjörfjölskyldur eru fjölskyldur með barn eða börn sem hafa verið ættleidd.

Samkynhneigðir sem eru í hjúskap eða skráðri sambúð mega ættleiða börn eða eignast börn með tæknifrjóvgun að uppfylltum þeim almennu skilyrðum sem gilda um ættleiðingu barna og hafa sama rétt og aðrir foreldrar.

Ofbeldi

Ofbeldi innan fjölskyldunnar er bannað samkvæmt lögum. Óheimilt er að beita maka eða börn líkamlegu eða andlegu ofbeldi.

Heimilisofbeldi skal tilkynna til lögreglu í síma 112 eða hafa samband í gegnum netspjallið á www.112.is.

Ef þig grunar að barn sé beitt ofbeldi, að það búi við óviðunandi aðstæður eða að heilsu þess og þroska sé í hættu, þá er þér skylt samkvæmt lögum að tilkynna það til Barna- og fjölskyldustofu.

Gagnlegir hlekkir

Í fjölbreytileika nútímasamfélags eru til ýmsar gerðir af fjölskyldum.