Greining á þroska- skerðingu hjá börnum
Er grunur um einhverfu, þroskahömlun, hreyfiraskanir eða aðra sjúkdóma? Börn sem greinast með fötlun eiga rétt á viðeigandi aðstoð.
Foreldrar barna með fötlun eiga m.a. rétt á heimilisgreiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins.
Ráðgjafar- og greiningarstöð
Ráðgjafar- og greiningarstöð er miðlæg þjónustu- og þekkingarmiðstöð sem sinnir börnum að 18 ára aldri hvar sem þau búa á landinu. Hlutverk hennar er m.a. að veita ráðgjöf og að greina börn með víðtækar þroskaskerðingar.
Markmiðið er að hjálpa börnum með þroskaskerðingar að nýta hæfileika sína og njóta velgengni á fullorðinsárum með því að veita langtímaeftirfylgd, miðla þekkingu um fatlanir og þroskaskerðingar og fræða um helstu íhlutunarleiðir.
Starfsmenn taka þátt í klínískum rannsóknum og ýmsum verkefnum á sviði fötlunar barna, í samvinnu við aðra, hér á landi og erlendis.
Fjölskyldumiðuð þjónusta
Greiningarstöðin leggur áherslu á heildstæða og fjölskyldumiðaða þjónustu, á næmni og virðingu fyrir menningu og gildum allra. Foreldrar eru hvattir til að taka virkan þátt í ákvörðunum um þjónustu við barn og taka þátt í íhlutunaráætlunum sé þess kostur.
Tilvísanir
Grunur um einhverfu og skyldar raskanir, þroskahömlun og hreyfihamlanir, er meginástæða tilvísunar til Ráðgjafar- og greiningarstöðvarinnar.
Frumgreining þarf að fara fram af fagaðila (t.d. barnalækni, sálfræðingi, leik- og grunnskólasérfræðingi) áður en tilvísun fæst á stöðina.
Réttindi barna með fötlun
Börn sem greinast með fötlun eiga rétt á sérstakri aðstoð samkvæmt lögum um réttindi fatlaðra. Jafnframt eiga þau rétt á þjónustu við fatlaða á vegum sveitarfélags.
Foreldrar barna með fötlun eiga rétt á umönnunargreiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins vegna aukinna útgjalda sökum ástands barns. Sjúkratryggingar Íslands greiða m.a. fyrir hjálpartæki (hjólastóla, göngugrind o.fl.), meðferð og ferðakostnað.
Frekari upplýsingar
Til að fá frekari og ítarlegri upplýsingar um Ráðgjafa- og greiningarstöðina, um greiningarferlið og réttindi þeirra barna sem greinast, bendum við á heimasíðu stöðvarinnar.
Gagnlegir hlekkir
- Ráðgjafar- og greiningarstöð
- Tryggingastofnun
- Sjúkratryggingar Íslands
- Gagnleg myndbönd frá Ráðgjafar- og greiningarstöð
- Réttindi fatlaðra
- Heilbrigðiskerfið
Er grunur um einhverfu, þroskahömlun, hreyfiraskanir eða aðra sjúkdóma? Börn sem greinast með fötlun eiga rétt á viðeigandi aðstoð.