Hoppa í meginmál
Persónuleg málefni

Réttindi fatlaðra

Samkvæmt lögum á fatlað fólk rétt á almennri þjónustu og aðstoð. Þau skulu hafa jafnan rétt á við aðra þjóðfélagsþegna og njóta sambærilegra lífskjara.

Fatlað fólk á rétt á menntun með viðeigandi stuðningi á öllum stigum menntunar. Þau eiga einnig rétt á aðstoð við að finna starf við hæfi.

Réttur

Landssamtökin Þroskahjálp eru frjáls og óháð félagasamtök sem hafa þann tilgang að berjast fyrir réttindum og vinna að málefnum fólks með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir sem og annars fatlaðs fólks, fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra með það að markmiði að tryggja þeim fulla jafnréttisstöðu á við aðra.

Þroskahjálp hefur framleitt fróðleg myndbönd um réttindi fatlaðra barna með innflytjendabakgrunn.

Fleiri myndbönd um fólk með þroskahömlun á ýmsum tungumálum eru fáanleg hér.

Jafnrétti fyrir fatlað fólk

Sjálfsbjörg er samtök hreyfihamlaðra á Íslandi. Markmið sambandsins er að berjast fyrir jafnrétti hreyfihamlaðs fólks á Íslandi og upplýsa almenning um aðstæður hreyfihamlaðs fólks.

Miðstöð hjálpartækja sér um afgreiðslu á hjálpartækjum til fatlaðs fólks og veitir ráðgjöf. Þegar keypt er hjálpartæki þarf heimild frá Sjúkratryggingum Íslands vegna greiðsluþátttöku.

Örorkustyrkur getur verið í boði fyrir einstaklinga á aldrinum 18-67 ára sem bera verulegan aukakostnað vegna örorku sinnar, til dæmis vegna lyfja, læknishjálpar eða hjálpartækja.

Skattafslættir fyrir fatlað fólk

Samkvæmt skattalögum geta örorkulífeyrisþegar og aðrir bótaþegar nýtt sér frádrátt til lækkunar tekjuskattsstofns. Flest sveitarfélög hafa sett sér reglur um ýmiskonar aðstoð við fatlað fólk. Misjafnt er eftir sveitarfélögum hversu mikill stuðningurinn er.

Öryrkjar geta til dæmis fengið afslátt af fasteignagjöldum og sótt um styrki til reksturs bifreiðar, niðurfellingu bifreiðagjalda og föst gjöld fyrir heimasíma. Örorkulífeyrisþegar og börn með umönnunarmat eru meðal þeirra sem greiða minna fyrir þau lyf sem þau verða að nota.

Afslættir af vörum og þjónustu

Öryrkjar geta fengið ýmsa almenna afslætti, greiða til að mynda lægri fargjöld fyrir ferðir með strætó.

Öryrkjabandalag Íslands hefur tekið saman upplýsingar um fyrirtæki og stofnanir sem veita  fólki sem fær örorkulífeyri afslátt af vörum og þjónustu. Upplýsingar um þetta má finna hér á upplýsingasíðu Öryrkjabandalagsins.

Hér má lesa sér til um fleiri málefni fatlaðs fólks:

Réttur fatlaðs fólks til almennrar þjónustu og aðstoðar

Upplýsingar um örorkubætur

Um skatta, afslætti og frádrátt fyrir fatlað fólk

ÖBÍ – Öryrkjabandalag Íslands

Húsnæðismál fatlaðs fólks

Á Íslandi eiga allir rétt á húsnæði sem er grundvallarmannréttindi. Fyrir fólk með líkamlega fötlun geta þessi réttindi varðað aðgengi og þjónustu eða aðstoð innan heimilis allan sólarhringinn eftir aðstæðum. Fólk með fötlun býr, eins og aðrir, annað hvort í eigin húsnæði eða í leiguhúsnæði. Önnur búsetuform geta verið heimili fyrir aldraða, skammtímavistun, sambýli, íbúðir eða hópheimili, fjölbýlishús og félagslegt leiguhúsnæði.

Umsóknir um skammtímameðferð og varanlegt húsnæði fyrir fötluð börn og fullorðna skulu berast á svæðisskrifstofur fyrir fatlaða eða til sveitarfélags.

Ábyrgð á búsetu og húsnæðismálum fatlaðra liggur hjá svæðisskrifstofum fyrir fatlaða, Öryrkjabandalagi Íslands, sveitarfélögum og Tryggingastofnun. Gagnlegar upplýsingar er að finna á vefsíðum viðkomandi stofnana.

Menntun og atvinna fyrir fólk með fötlun

Fötluð börn eiga rétt á leik- og grunnskólanámi í því sveitarfélagi sem þau eiga lögheimili í. Greining skal að fara fram við eða fyrir komu í skóla til að tryggja að börn fái viðeigandi stuðningsþjónustu. Í Reykjavík er starfræktur Klettaskóli sem er sérskóli fyrir börn á grunnskólaaldri með miðlungs, alvarlega og djúpa þroskahömlun, með eða án viðbótarfatlana. Klettaskóli þjónar öllu landinu.

Fötluð börn í framhaldsskólum skulu samkvæmt íslenskum lögum eiga kost á sérhæfðri aðstoð við hæfi. Í mörgum framhaldsskólum eru sérstakar deildir, verknámsbrautir og aukanámskeið sem eru sérstaklega hönnuð til að mæta þörfum fatlaðra barna.

Fjölmennt – símenntunar- og þekkingarmiðstöð býður upp á ýmis námskeið fyrir fólk með fötlun. Einnig er þar veitt ráðgjöf um annað nám í samstarfi við Endurmenntunarskóla Mímis. Háskóli Íslands býður upp á starfsnám í þroskaþjálfun.

Öryrkjabandalag Íslands ásamt hagsmunasamtökum, félagasamtökum og sveitarfélögum, veita ráðgjöf og upplýsingar um þá menntun og atvinnu sem er í boði fyrir fatlaða.

Vinnumálastofnun veitir þeim stuðning sem þurfa aðstoð við að finna starf við hæfi á almennum vinnumarkaði.

Gagnlegir hlekkir