Meðlag og barnabætur
Meðlag er greiðsla frá foreldri fyrir framfærslu eigin barns til þess foreldris sem fer með forsjá barnsins.
Barnabætur eru fjárhagslegur stuðningur frá ríkinu til barnafjölskyldna sem ætlað er að aðstoða foreldra með börn og jafna stöðu þeirra.
Foreldrum er skylt að framfleyta börnum sínum að 18 ára aldri, en í því felst að fæða og klæða barn og sjá því fyrir húsnæði, eða að leggja til fjárframlög í þessum tilgangi.
Meðlag
Foreldri sem fer með forsjá barns og fær greiðslur frá hinu foreldrinu, fær þessar greiðslur í eigin nafni en þarf að nýta þær í þágu barnsins.
- Foreldrar semja um meðlag við skilnað eða sambúðarslit og þegar breytingar verða á forsjá barns.
- Það foreldri sem barnið á lögheimili hjá og býr hjá óskar yfirleitt eftir meðlagi.
- Meðlagssamningar gilda aðeins ef þeir eru staðfestir af sýslumanni.
- Meðlagssamningi má breyta ef aðstæður breytast eða ef hann þjónar ekki hagsmunum barns.
- Ágreiningi um meðlagsgreiðslur skal vísa til sýslumanns.
Lestu um meðlag á heimasíðu Tryggingastofnunar og sýslumanns.
Barnabætur
Barnabætur eru ætlaðar til að létta undir með barnafjölskyldum og jafna stöðu þeirra. Ákveðin upphæð er greidd út til foreldra fyrir hvert barn að átján ára aldri.
- Barnabætur eru greiddar til foreldra með börn yngri en átján ára.
- Ekki þarf að sækja um barnabætur. Upphæð barnabóta fer eftir tekjum foreldra, hjúskaparstöðu þeirra og fjölda barna.
- Skattayfirvöld reikna út upphæð barnabóta eftir upplýsingum úr skattframtölum.
- Barnabætur eru greiddar ársfjórðungslega: 1. febrúar, 1. maí, 1. júní og 1. október.
- Barnabætur teljast ekki til tekna og eru ekki skattskyldar.
- Sérstök uppbót, sem jafnframt er tekjutengd, er greidd með börnum yngri en 7 ára.
Lestu meira um barnabætur á heimasíðu Skattsins.
Gagnlegir hlekkir
Foreldrum er skylt að framfleyta börnum sínum að 18 ára aldri.