Hoppa í meginmál
Fjármál

Skattar og skyldur

Almennt eru allar tekjur skattgreiðanda skattskyldar. Á þessu eru aðeins örfáar undantekningar. Skattur vegna launatekna er dreginn af launum hvers mánaðar.

Persónuafsláttur er skattaafsláttur sem lækkar skattinn sem tekinn er af launum. Allir sem eru skattskyldir á Íslandi þurfa að skila skattframtali á hverju ári.

Skattskyldar tekjur

Skattskyldar tekjur fela í sér hvers kyns tekjur af fyrri og núverandi atvinnu, viðskiptum og fjármagni. Allar tekjur eru skattskyldar nema þær séu undanþegnar. Innheimta einstakra tekjuskatta (ríkis og sveitarfélaga) á atvinnutekjur fer fram í hverjum mánuði (staðgreiðsla á skatti) á tekjuárinu.

Nánari upplýsingar um skattskyldar tekjur má finna á vefsíðu Skattsins.

Persónuafsláttur

Persónuafsláttur er skattfrádráttur sem lækkar þann skatt sem dreginn er af launum. Til að rétt upphæð persónuafsláttar sé nýtt í hverjum mánuði verða starfsmenn að upplýsa vinnuveitendur sína við upphaf atvinnu hvort nota eigi persónuaflsátt að fullu eða að hluta. Án leyfis starfsmanns þarf vinnuveitandinn að draga fullan skatt án persónulegs skattaafsláttar. Sama á við ef þú ert með aðrar tekjur eins og lífeyri, bætur o.fl. Lestu meira um persónuafslátt á skatturinn.is.

Svört vinna

Stundum er fólk beðið um að gefa ekki upp vinnu til skatts. Þetta er þekkt sem „svört vinna“. Með svartri vinnu er átt við hvers kyns launaða starfsemi sem ekki er gefin upp til yfirvalda. Svört vinna er ólögleg og hefur neikvæð áhrif á samfélagið en ekki síður á fólkið sem vinnur svart. Lestu meira um svarta vinnu hér.

Skattframtal

Á þessari vefsíðu hjá Skattinum finnur þú ítarlegar framtalsleiðbeiningar. Algengast er að fólk skrái sig inn til að fylla út framtöl með því að nota rafræn skiríki.

Hér má finna einfaldaðar framtalsleiðbeiningar á ýmsum tungumálum.

Allir sem eru skattskyldir á Íslandi verða að skila skattframtali á hverju ári, yfirleitt í mars. Í skattframtölum koma fram heildartekjur fyrir árið á undan sem og skuldir og eignir. Ef skattgreiðandi hefur borgað of mikinn eða of lítinn skatt við staðgreiðslu á síðasta ári er það leiðrétt í júlí sama ár og skattframtali er skilað. Ef of lítill skattur var greiddur þarf að greiða mismuninn. Ef of mikill skattur er borgaður er hann endurgreiddur.

Skattframtölum er skilað á netinu. Ef skattframtal er ekki lagt fram leggur Skatturinn mat á tekjur og reiknar útgjöldin í samræmi við það.

Tekjur og tollar Íslands hafa birt leiðbeiningar um hvernig á að „afgreiða sig sjálfur“ á fjórum tungumálum, ensku, pólsku, litháensku and íslensku.

Einfaldaðar leiðbeiningar um hvernig á að skila skattframtali hafa verið gefnar út á fimm tungumálum, enskupólsku, spænsku, litháensku and íslensku.

Ef þú ætlar að flytja af landi brott þarftu að upplýsa Þjóðskrá og skila skattframtali áður en þú ferð, til að forðast að þurfa að greiða óvæntan skatt.

Að byrja í nýrri vinnu

Allir sem vinna á Íslandi þurfa að borga skatta. Skattar af launum skiptast í: 1) tekjuskatt til ríkisins og 2) útsvar til sveitarfélags. Tekjuskattur skiptist í skattþrep. Hlutfall skatts sem dreginn er af launum miðast við upphæð launa og skattfrádráttur skal alltaf vera sýnilegur á launaseðli. Með því að geyma launaseðla er hægt að sanna að skattur hafi verið greiddur. Frekari upplýsingar um skattþrep er að finna á vef ríkisskattstjóra.

Þegar byrjað er í nýju starfi er gott að hafa í huga að:

  • Starfsmanni ber að upplýsa vinnuveitanda um hvort nota eigi persónuafslátt við útreikning á staðgreiðslu skatta og ef svo er, hvaða hlutfall eigi að nota (að hluta eða að fullu).
  • Starfsmanni ber að tilkynna vinnuveitanda sínum ef hann hefur áunnið sér persónuafslátt eða óskar eftir að nýta persónuafslátt maka síns.

Starfsmenn geta athugað hversu stór hluti persónuafsláttar þeirra hefur verið nýttur með því að skrá sig inn á þjónustusíður á heimasíðu Skattsins. Einnig geta starfsmenn sótt yfirlit yfir nýttan persónuafslátt á yfirstandandi skattári til að skila til vinnuveitanda sé þess óskað.

Virðisaukaskattur

Þeir sem selja vörur og þjónustu á Íslandi þurfa að gefa upp og greiða virðisaukaskatt (VSK), 24% eða 11%, sem bætist við verð söluvörunnar.

Erlend sem innlend fyrirtæki og sjálfstætt starfandi fyrirtækjaeigendur sem selja skattskyldar vörur og þjónustu hér á landi þurfa að tilkynna starfsemi sína til skráningar á virðisaukaskatti. Þeim er skylt að fylla út eyðublað RSK 5.02 og skila því til Skattsins. Þegar þeir hafa skráð sig fá þeir virðisaukaskattsskráningarnúmer og skráningarskírteini. VOES (VSK á rafræna þjónustu) er einfölduð virðisaukaskattsskráning sem er í boði fyrir ákveðin erlend fyrirtæki.

Undanþegnir skyldu til að skrá virðisaukaskatt eru þeir sem selja vinnu og þjónustu sem er undanþegin virðisaukaskatti og þeir sem selja skattskyldar vörur og þjónustu fyrir 2.000.000 krónur eða minna á hverju tólf mánaða tímabili frá upphafi viðskipta þeirra. Skráningarskyldan gildir ekki um starfsmenn.

Frekari upplýsingar um virðisaukaskatt er að finna á heimasíðu ríkisskattstjóra.

Frí lögfræðiaðstoð

Lögmannavaktin er gjaldfrjáls lögfræðiþjónusta við almenning á vegum Lögmannafélags Íslands. Þjónustan er í boði alla þriðjudagseftirmiðdaga frá september til júní. Nauðsynlegt er að panta viðtal fyrirfram í síma 568-5620. Nánari upplýsingar má finna hér.

Laganemar við Háskóla Íslands bjóða upp á ókeypis lögfræðiráðgjöf fyrir almenning. Hægt er að hringja í síma 551-1012 á fimmtudagskvöldum milli 19:30 og 22:00. Á þessari Facebook síðu má finna frekari upplýsingar.

Laganemar við Háskólann í Reykjavík bjóða einnig upp á ókeypis lögfræðiaðstoð. Hægt er að hafa samband með því að senda fyrirspurn á logrettalaw@logretta.is. Starfsemin hefst í september ár hvert og stendur fram í byrjun maí, að undanskyldum prófatímabili laganema. Skattadagurinn er árlegur viðburður á vegum Lögfræðiþjónustu Lögréttu. Þá getur almenningur komið og fengið aðstoð við útfyllingu skattframtala.

Mannréttindamiðstöð Íslands veitir innflytjendum lögfræðiráðgjöf. Kynntu þér málið hér.

Kvennaráðgjöfin er ókeypis lögfræði- og félagsráðgjöf fyrir konur. Opnunartímar eru þriðjudaga frá kl. 20-22 og fimmtudaga frá kl. 14-16. Megintilgangur starfseminnar er að veita konum stuðning og ráðgjöf, en Kvennaráðgjöfin er opin öllum konum og körlum og má hvort sem er koma eða hringja. Freakari upplýsingar má finna hér.

Gagnlegir hlekkir

Almennt eru allar tekjur skattgreiðanda skattskyldar.