Réttindi launþega
Allir launþegar á Íslandi, óháð kyni eða þjóðerni, njóta sömu réttinda varðandi laun og önnur starfskjör og samið er um af stéttarfélögum á íslenskum vinnumarkaði.
Mismunun starfsmanna er ekki eðlilegur hluti af vinnuumhverfi.
Réttindi og skyldur launafólks
- Laun skulu vera í samræmi við kjarasamninga.
- Vinnutími má ekki vera lengri en sá vinnutími sem lög og kjarasamningar leyfa.
- Launað orlof skal vera í samræmi við lög og kjarasamninga.
- Allt launafólk á rétt á launum frá vinnuveitanda vegna veikinda og slysa í tiltekinn tíma. Starfsmaður skal fá launaseðil þegar laun eru greidd.
- Atvinnurekendum ber að greiða skatta af öllum launum. Einnig skulu þeir greiða viðeigandi hlutfall til viðkomandi lífeyrissjóðs og verkalýðsfélags.
- Atvinnuleysisbætur og annar fjárhagslegur stuðningur er í boði og launafólk getur sótt um bóta- og endurhæfingarlífeyri eftir veikindi eða slys.
Kynntu þér réttindi launamanna og skyldur hér.
Ertu nýr á vinnumarkaði?
ASÍ er með mjög gagnlega vefsíðu ætlaða fólki sem er nýtt á íslenskum vinnumarkaði. Síðan er á fjölmörgum tungumálum.
Á síðunni má meðal annars finna upplýsingar um helstu réttindi á vinnumarkaði, leiðbeiningar um hvernig má finna stéttarfélagið sitt, upplýsingar um hvernig launaseðlar eru samansettir og gagnlega hlekki fyrir vinnandi fólk á Íslandi
Inni á síðunni er hægt að senda ASÍ ábendingar eða fyrirspurnir, nafnlaust ef óskað er.
Hér má nálgast bækling á PDF formi sem er á mörgum tungumálum og fullur af gagnlegum upplýsingum: Ertu á vinnumarkaði?
Við höfum öll okkar mannréttindi: Réttindi launaþega
Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018 kveða skýrt á um bann við allri mismunun á vinnumarkaði. Lögin banna mismunun á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkennum eða kyntjáningu.
Við gerð laganna var höfð hliðsjón af efni tilskipunar Evrópuráðsins 2000/43/EB um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna á vinnumarkaði og í efnahagslífi.
Skýrt bann við mismunun á vinnumarkaði gerir okkur kleift að stuðla að jöfnum tækifærum til virkrar þátttöku á íslenskum vinnumarkaði og koma í veg fyrir félagslega einangrun. Auk þess er markmið slíkrar lagasetningar að koma í veg fyrir að skoðanir á mismunandi verðleikum kynþátta festi hér rætur.
Þetta myndband fjallar um réttindi launþega á Íslandi. Þar er að finna gagnlegar upplýsingar um réttindi launafólks og einnig er fjallað um reynslu fólks með alþjóðlega vernd á Íslandi.
Myndbandið var unnið af Amnesty International á Íslandi og Mannréttindaskrifstofu Íslands.
Jafnréttisstofa hefur útbúið þetta fræðslumyndband um helstu einkenni vinnumansals. Myndbandið hefur verið talsett og textað á fimm tungumálum (íslensku, ensku, pólsku, spænsku og úkraínsku). Hægt er að finna allar útgáfurnar hér.
Vinna barna og unglinga
Almenna reglan er sú að börn mega ekki vinna. Börn í skyldunámi má einungis ráða í létta vinnu. Börn yngri en þrettán ára mega einungis taka þátt í menningarlegum og listrænum viðburðum og íþrótta- og auglýsingastarfi og aðeins með leyfi Vinnueftirlits ríkisins.
Börn á aldrinum 13-14 ára má ráða í störf af léttara tagi, nema þau sem teljast hættuleg eða líkamlega erfið. Þau sem eru á aldrinum 15-17 ára geta unnið allt að átta tíma á dag (fjörutíu tíma á viku) í skólafríinu. Börn og unglingar mega ekki vinna á nóttunni.
Launað orlof
Allir launþegar eiga rétt á um það bil tveggja daga launuðu orlofi fyrir hvern mánuð í fullu starfi á orlofsárinu (1. maí til 30. apríl). Orlof er fyrst og fremst tekið á tímabilinu maí til september. Lágmarksréttur orlofs er 24 dagar á ári miðað við fullt starf. Starfsmenn hafa samráð við vinnuveitanda sinn um upphæð áunnins orlofs og hvenær taka má frí frá vinnu.
Vinnuveitendur leggja að lágmarki 10,17% af launum inn á sérstakan bankareikning sem skráður er á nafn hvers starfsmanns. Þessi upphæð kemur í stað launa þegar starfsmaður tekur frí frá vinnu vegna orlofs, sem er yfirleitt tekið að mestu leyti á sumrin. Hafi starfsmaður ekki safnað nægilega miklu inn á þennan reikning fyrir fullfjármagnað orlof er honum samt sem áður heimilt að taka að lágmarki 24 daga orlof í samráði við vinnuveitanda og er þá hluti orlofs án launa.
Veikist starfsmaður á meðan hann er í sumarfríi teljast veikindadagar ekki til orlofs og dragast ekki frá þeim dagafjölda sem starfsmaður á rétt á. Komi upp veikindi í orlofi skal starfsmaður leggja fram heilbrigðisvottorð frá lækni, heilsugæslustöð eða sjúkrahúsi þegar hann kemur aftur til vinnu. Starfsmanni ber að nýta þá orlofsdaga sem hann á eftir vegna slíks atviks fyrir 31. maí næstkomandi.
Vinnutími og hátíðardagar
Vinnutími fer eftir sérstökum lögum. Þetta veitir starfsmönnum rétt á ákveðnum hvíldartíma, matar- og kaffitíma og lögbundnum frídögum.
Veikindaleyfi
Sá sem ekki getur mætt til vinnu vegna veikinda á rétt á launuðu veikindaleyfi. Til að eiga rétt á launuðu veikindaleyfi þarftu að hafa unnið í minnst einn mánuð hjá sama vinnuveitanda. Veikindaréttur launafólks eykst eftir því sem lengur er unnið hjá sama atvinnurekanda. Fjöldi veikindadaga fer þó ekki yfir visst hámark sem er breytilegt eftir kjarasamningum. Almennt eiga launþegar rétt á tveimur launuðum veikindadögum í hverjum mánuði. Fjárhæðir eru mismunandi eftir starfsgreinum en slíkar upplýsingar má finna í kjarasamningum.
Sé starfsmaður lengur fjarverandi frá vinnu lengur en hann á rétt á veikindaleyfi vegna veikinda eða slysa getur hann sótt um dagpeninga úr sjúkrasjóði stéttarfélags síns.
Bætur vegna veikinda eða slysa
Þeir sem ekki eiga rétt á tekjum í veikindum eða vegna slyss geta átt rétt á daggreiðslum vegna veikinda.
Uppfylla þarf eftirfarandi skilyrði:
- Vera tryggður á Íslandi.
- Vera óvinnufær í minnst 21 dag samfleytt (staðfest af lækni).
- Hafa ekki unnið eða nám hefur tafist.
- Vera hætt(ur) að fá launatekjur (ef viðkomandi var launþegi).
- Vera 16 ára eða eldri.
Rafræn umsókn er aðgengileg í réttindagáttinni á vef Sjúkratrygginga Íslands.
Einnig er hægt að fylla út umsókn um sjúkradagpeninga og skila til Sjúkratrygginga Íslands eða til fulltrúa sýslumanna utan höfuðborgarsvæðisins.
Sjúkradagpeningar eru lægri en lágmarkslaun. Til að ná framfærsluviðmiðum þarf einnig að sækja um sjúkradagpeninga stéttarfélags eða fjárhagsaðstoð sveitarfélags.
Lestu meira um sjúkradagpeninga á island.is.
Hafðu í huga að:
- Sjúkradagpeningar eru ekki greiddir fyrir sama tímabil og endurhæfingarlífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins.
- Sjúkradagpeningar eru ekki greiddir fyrir sama tímabil og slysadagpeningar frá Sjúkratryggingum Íslands.
- Sjúkradagpeningar eru ekki greiddir samhliða greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.
- Sjúkradagpeningar eru ekki greiddir samhliða atvinnuleysisbótum frá Vinnumálastofnun. Réttur til sjúkradagpeninga kann þó að vera til staðar ef atvinnuleysisbætur falla niður vegna veikinda.
Endurhæfingarlífeyrir eftir veikindi eða slys
Endurhæfingarlífeyrir er ætlaður þeim sem eru óvinnufærir vegna veikinda eða slysa og eru í endurhæfingu með það markmið að snúa aftur á vinnumarkað. Meginskilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris er að umsækjandi taki þátt í skipulagðri endurhæfingu undir eftirliti fagaðila með það markmið að endurheimta starfshæfni sína.
Þú getur fundið frekari upplýsingar um endurhæfingarlífeyri á vef Tryggingastofnunar ríkisins. Þú getur beðið um upplýsingar með þessu eyðublaði.
Laun
Greiðsla launa skal skjalfest á launaseðli. Á launaseðli þarf að koma skýrt fram útborguð upphæð, formúlan sem notuð er til að reikna út upphæð launa og allar upphæðir sem hafa verið dregnar frá eða bætt við laun starfsmanns.
Starfsmaður skal hafa upplýsingar um skattgreiðslur, orlofsgreiðslur, yfirvinnugreiðslur, launalaust leyfi, almannatryggingagjöld og aðra þætti sem geta haft áhrif á laun.
Skattur
Yfirlit yfir skatta, skattaafslátt, skattkort, skattframtöl og önnur mál tengd sköttum má finna hér.
Að vinna svart
Stundum er fólk beðið um að gefa ekki upp vinnu til skatts. Þetta er þekkt sem „svört vinna“. Með svartri vinnu er átt við hvers kyns launaða starfsemi sem ekki er gefin upp til yfirvalda. Svört vinna er ólögleg og hefur neikvæð áhrif á samfélagið en ekki síður á fólkið sem vinnur svart. Fólk sem vinnur svart hefur ekki sama rétt og annað launafólk og þess vegna er mikilvægt að vita hvaða afleiðingar það hefur að gefa upp ekki laun til skatts.
Viðurlög liggja við svartri vinnu þar sem hún flokkast sem skattsvik. Hætta á að þeir sem vinna svart fái ekki greidd laun samkvæmt kjarasamningum. Einnig getur það reynst örðugt að að krefja vinnuveitanda um ógreidd laun.
Sumir gætu litið á svarta vinnu sem kost sem kemur sér vel fyrir báða aðila – vinnuveitandinn borgar lægri laun og starfsmaðurinn fær hærri laun án þess að borga skatta. Hins vegar öðlast starfsmenn ekki mikilvæg réttindi eins og lífeyri, atvinnuleysisbætur, orlof og fleira. Þeir eru heldur ekki tryggðir ef til þeir lenda í slysi eða veikjast.
Svart atvinnustarfsemi hefur áhrif á þjóðfélagið þar sem ríkið fær minni skatta til að reka opinbera þjónustu og þjóna þegnum sínum.
Alþýðusamband Íslands (ASÍ)
Hlutverk ASÍ er að efla hagsmuni aðildarfélaga sinna, verkalýðsfélaga og launafólks með því að veita forystu með samræmingu stefnu á sviði atvinnu-, félags-, mennta-, umhverfis- og vinnumarkaðsmála.
Alþýðusamband Íslands er stærsta fjöldahreyfing launafólks á landinu. Alþýðusambandið berst fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna og stendur vörð um réttindi þeirra. Félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ eru starfandi á flestum sviðum samfélagsins, á almennum vinnumarkaði og hjá ríki og sveitarfélögum.
Gagnlegir hlekkir
- Að fara út á vinnumarkaðinn - island.is
- Alþýðusamband Íslands (ASÍ)
- Mannréttindaskrifstofa Íslands
- Vinnueftirlitið
- Réttindi launþega (á ensku)
- Vinnumansal - Fræðslumyndband
Mismunun starfsmanna er ekki eðlilegur hluti af vinnuumhverfi.