Skilgreining á atvinnuleyfi fyrir innflytjendur
Atvinnurekendur þurfa að gera sér grein fyrir því að útlendingar (einnig innflytjendur) þurfa atvinnu- og dvalarleyfi til að starfa á Íslandi.
Það eru ýmis skilyrði fyrir atvinnu- og dvalarleyfi og svo er munur á atvinnuleyfum fyrir eftir því hvaðan fólk kemur.
Nokkrar undanþágur frá því að þurfa atvinnuleyfi eru mögulegar.
Skilgreining á atvinnuleyfi
Mikilvægt er að atvinnurekendur geri sér grein fyrir því að útlendingar (einnig innflytjendur) þurfa atvinnu- og dvalarleyfi til að starfa á Íslandi. Það eru ýmis skilyrði fyrir atvinnu- og dvalarleyfi og svo er munur á atvinnuleyfum fyrir innflytjendur sem koma frá löndum utan EES/EFTA svæðisins og innan. Svo eru nokkrar undanþágur mögulegar. Mikilvægt er að þekkja þennan mun þegar hugað er að ráðningu erlends starfsfólks.
Einnig er mikilvægt að atvinnurekendur sæki um atvinnuleyfi fyrir þann sem þeir vilja ráða til starfa. Á vefsíðu Stjórnarráðsins er að finna greinargóðar upplýsingar um atvinnuréttindi erlends starfsfólks á Íslandi.
Hverjir þurfa ekki á atvinnu- og dvalarleyfi að halda?
Það þurfa ekki allir að sækja um atvinnu- og dvalarleyfi sem flytja til Íslands. Þeir sem njóta slíkrar undanþágu er heimilt að starfa hjá hvaða atvinnurekanda sem er. Einstaklingum með ótakmörkuð atvinnuréttindi er einnig heimilt að starfa sjálfstætt kjósi þeir það. En mikilvægt er að atvinnurekendur þekki vel ferlið við ráðningu útlendinga/innflytjenda sem þurfa ekki á atvinnuleyfi að halda til að tryggja að farið sé eftir öllum leiðbeiningum og skilyrðum í hverju tilfelli fyrir sig.
Eftirfarandi einstaklingar fá undanþágu og þurfa því ekki atvinnuleyfi:
- Útlendingar sem falla undir samning um Evrópska efnahagssvæðið, fríverslunarsamning Evrópu og samnings Íslands, Danmerkur og Færeyja.
- Útlendingar með ótímabundið dvalarleyfi.
- Erlendir makar og sambúðarmakar íslenskra ríkisborgara og börn þeirra upp að átjan ára aldri.
- Útlendingar sem hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar.
- Útlendingar í einkaþjónustu sendimanna erlendra ríkja.
- Útlendingar sem hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli vinnudvalar ungs fólks.
- Útlendingar sem voru íslenskir ríkisborgarar frá fæðingu en hafa misst íslenskan ríkisborgararétt sinn.
- Eru með dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
- Eru með dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.
Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Vinnumálastofnunar.
Hverjir þurfa að sækja um atvinnu- og dvalarleyfi?
Atvinnurekandi sem vill ráða erlendan ríkisborgara til starfa, þarf að fá útgefið tímabundið atvinnuleyfi fyrir viðkomandi, áður en hann hefur störf. Tímabundið atvinnuleyfi þarf að liggja fyrir áður en erlendi ríkisborgarinn kemur til landsins og er leyfið vanalega gefið út til eins árs í senn. Þó aldrei til lengri tíma en dvalarleyfi eða ráðningarsamningur gerir ráð fyrir. Það er Vinnumálastofnun sem tekur við gögnum frá Útlendingastofnun og veitir atvinnuleyfið.
Vinnumálastofnun gefur út tímabundin atvinnuleyfi vegna erlendra ríkisborgara (sem eiga ekki rétt á undanþágu) en þau eru sjö talsins:
- Tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar.
- Tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á vinnuafli.
- Tímabundið atvinnuleyfi fyrir íþróttafólk.
- Tímabundið atvinnuleyfi vegna sérstakra ástæðna.
- Tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.
- Tímabundið atvinnuleyfi vegna náms.
- Tímabundið atvinnuleyfi vegna sérhæfðra starfsmanna á grundvelli þjónustusamnings eða samstarfssamnings um kennslu-, fræði- eða vísindastörf.
Eftir að erlendi ríkisborgarinn/starfsmaðurinn kemur til landsins þarf hann að mæta til Útlendingarstofnunar (sýslumanns utan höfuðborgarsvæðisins) með vegabréf og láta taka mynd af sér í dvalarskírteini og klára skráninguna.
Atvinnuleyfið er skilyrt við tiltekinn atvinnurekanda, en vilji starfsmaður skipta um vinnu þarf að sækja um nýtt atvinnuleyfi. Ekki má hefja starf hjá nýjum atvinnurekanda fyrr en nýtt leyfi liggur fyrir.
Dvalarleyfi vegna atvinnu
Dvalarleyfi vegna atvinnu er fyrir fólk sem vill dvelja á Íslandi vegna þess að það hefur fengið vinnu hér á landi. Hægt er að sækja um dvalarleyfi á grundvelli atvinnu:
- Vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar.
- Vegna skorts á starfsfólki.
- Fyrir íþróttafólk.
- Fyrir sérhæfða starfsmenn á grundvelli samstarfs- eða þjónustusamnings.
Frekari upplýsingar um dvalarleyfi vegna atvinnu er að finna hér.