Hoppa í meginmál
Stjórnskipulag

Stofnanir

Alþingi, þjóðþing Íslands, er elsta starfandi þing í heimi, stofnað árið 930. 63 fulltrúar sitja á þingi.

Ráðuneyti bera ábyrgð á framkvæmd löggjafarvaldsins. Undir hverju ráðuneyti heyra ýmsar ríkisstofnanir sem geta verið sjálfstæðar eða hálfsjálfstæðar.

Dómsvaldið er ein af þremur meginstoðum ríkisvaldsins. Í stjórnarskránni segir að dómarar fari með dómsvald og að þeir séu sjálfstæðir í störfum sínum.

Alþingi

Alþingi er löggjafarþing Íslands. Það er elsta þjóðþing í heimi, stofnað árið 930 á Þingvöllum. Það var fært til Reykjavíkur árið 1844 og hefur verið þar síðan.

Íslenska stjórnarskráin skilgreinir Ísland sem lýðveldi með þingbundinni stjórn, fulltrúalýðræði. Alþingi er hornsteinn lýðræðisins. Fjórða hvert ár velja kjósendur, með leynilegri kosningu, 63 fulltrúa til setu á þingi. Hins vegar geta kosningar einnig farið fram ef þingrof verður þar sem boðað er til almennra kosninga.

Alþingismenn eru 63 og sameiginlega með vald til að setja þegnum landsins lög auk þess sem þeir fara með fjárstjórnarvald. Þeir geta því tekið ákvarðanir um opinber útgjöld og skattamál.

Mikilvægt er að fólk viti hvaða ákvarðanir eru teknar á Alþingi og hvernig þær eru teknar því að kjósendur og fulltrúar þeirra bera ábyrgð á að varðveita virkt lýðræði. Segja má að kosningarrétturinn sé undirstaða lýðræðis á Íslandi.

Sjá nánar um Alþingi.

Ráðuneyti

Ráðuneyti, undir forustu ráðherra í ríkisstjórn, bera ábyrgð á framkvæmd löggjafarvaldsins. Ráðuneytin eru æðsta stjórnsýslustigið. Starfssvið, nöfn og jafnvel tilvist ráðuneyta geta breyst eftir stefnu stjórnvalda hverju sinni.

Undir hvert ráðuneyti heyra ýmsar ríkisstofnanir sem geta verið sjálfstæðar eða hálfsjálfstæðar. Þessar stofnanir bera ábyrgð á að framfylgja stefnu, annast eftirlit, vernda og varðveita réttindi borgaranna og veita þjónustu í samræmi við lög.

Listi yfir ráðuneyti á íslandi

Lisit yfir ríkisstofnanir

Dómskerfið

Dómsvaldið er ein af þremur greinum ríkisvaldsins. Í stjórnarskránni segir að dómarar fari með dómsvald og að þeir séu sjálfstæðir í störfum sínum. Á Íslandi er dómskerfið þrískipt.

Héraðsdómur

Allar málsmeðferðir á Íslandi hefjast fyrir Héraðsdómstólum. Þeir eru átta og staðsettir víðsvegar um landið. Niðurstöðu héraðsdóms má áfrýja til áfrýjunardómstóls (Landsréttur) að uppfylltum sérstökum skilyrðum til áfrýjunar. Alls eiga 42 dómarar sæti við héraðsdómstólana.

Landréttur

Landsréttur er dómstóll á öðru stigi, staðsettur á milli héraðsdóms og Hæstaréttar. Áfrýjunardómstóll var tekinn upp árið 2018 og er liður í mikilli endurskipulagningu á íslensku dómskerfi. Við Landsrétt starfa fimmtán dómarar.

Hæstiréttur

Hægt er að skjóta niðurstöðu Landsréttar til Hæstaréttar, í sérstökum tilvikum, að fengnu leyfi Hæstaréttar, sem er æðsti dómstóll landsins. Í flestum tilfellum verður dómur áfrýjunardómstólsins endanleg úrlausn málsins.

Hæstiréttur Íslands er fordæmisgefandi dómstóll. Í honum sitja sjö dómarar.

Lögreglan

Löggæsla er í höndum lögreglu, landhelgisgæslu og tollgæslu.

Ísland hefur aldrei haft her – ekki landher, sjóher né flugher.

Hlutverk lögreglunnar á Íslandi er að vernda og þjóna almenningi. Hún vinnur að því að koma í veg fyrir ofbeldi og glæpi auk þess að rannsaka og leysa sakamál. Almenningi er skylt að hlýða fyrirmælum lögreglu. Ef það er ekki gert getur það varðað sektum eða fangelsi.

Lögreglumál á Íslandi heyra undir dómsmálaráðuneytið og eru í höndum Embættis ríkislögreglustjóra í umboði ráðuneytisins. Stofnunin skiptist í níu umdæmi, stærst er Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sem ber ábyrgð á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Finndu næsta lögregluumdæmi við þig hér.

Lögreglumenn á Íslandi eru ekki vopnaðir nema lítilli kylfu og úðabrúsa. Hins vegar hefur lögreglan í Reykjavík sérstaka sveit sem er þjálfuð í notkun skotvopna og í aðgerðum gegn vopnuðum einstaklingum og í erfiðum aðstæðum þar sem öryggi almennings gæti verið í hættu.

Hér á landi nýtur lögreglan mikils trausts íbúa og fólki er óhætt að leita til lögreglu ef það telur sig hafa orðið fyrir afleiðingum abrota eða ofbeldi.

Ef þig vantar aðstoð frá lögreglu skaltu hringja í 112 eða hafa samband við netspjallið á vefsíðu 112.

Þú getur einnig tilkynnt afbrot eða haft samband við lögregluna í neyðartilvikum í gegnum vefsíðu hennar.

Útlendingastofnun

Útlendingastofnun heyrir undir dómsmálaráðuneytið. Útlendingastofnun afgreiðir umsóknir um dvalarleyfi, íslenskan ríkisborgararétt, alþjóðlega vernd og vegabréfsáritanir. Hjá stofnuninni eru einnig teknar ákvarðanir varðandi heimild útlendinga til dvalar á landinu, gefin út ferðaskilríki fyrir flóttamenn og vegabréf fyrir útlendinga.

Vefsvæði Útlendingastofnunar

Vinnumálastofnun

Vinnumálastofnun heyrir undir félagsmálaráðuneytið og fer m.a. með yfirstjórn vinnumiðlunar í landinu og daglega afgreiðslu Atvinnuleysistryggingasjóðs, Fæðingarorlofssjóðs, Ábyrgðarsjóðs launa auk fjölmargra annara vinnumarkaðstengdra verkefna.

Stofnunin hefur margvíslegar skyldur, þar á meðal skráningu atvinnuleitenda og útborgun atvinnuleysisbóta.

Auk höfuðstöðva í Reykjavík hefur stofnunin átta svæðisskrifstofur víðsvegar um landið sem veita atvinnuleitendum og vinnuveitendum stuðning við atvinnuleit og virkni starfsfólks.

Hafa samband við Vinnumálastofnun

Gagnlegir hlekkir

Ráðuneytin bera ábyrgð á framkvæmd löggjafarvaldsins.