Hoppa í meginmál
Bókasöfn og menning · 09.02.2024

Viðburðir og þjónusta á vegum Borgarbókasafnsins þetta vorið

Borgarbókasafnið er með metnaðarfulla dagskrá, veitir allskyns þjónustu og stendur fyrir reglulegum viðburðum fyrir börn sem og fullorðna. Ókeypis er á alla viðburði.

Sem dæmi um fasta viðburði og nýja sem verða á dagskrá Borgarbókasafnsins á þessu ári er íslenskukennsla, Fræsafn, hannyrðastundir, fjölskyldumorgnar, Söguhorn og fjölmargt fleira.

Hér má finna allar upplýsingar um dagskrá bókasafnsins.

Ókeypis bókasafnskort fyrir börn

Börn fá ókeypis bókasafnskort og árgjald fyrir fullorðna er 3.060 krónur. Korthafar geta fengið lánaðar bækur, tímarit, geisladiska, mynddiska, vínilplötur og borðspil.

Ekki þarf að eiga bókasafnskort eða biðja um leyfi starfsfólks til að dvelja á safninu – öll eru velkomin, alltaf. Þar er t.d. hægt að lesa, spila við vini (bókasafnið á mörg borðspil), tefla, sinna heimavinnu/fjarvinnu og margt fleira.

Á bókasafninu má finna barnabækur og fullorðinsbækur á mörgum tungumálum. Bækur á íslensku og ensku eru á öllum átta söfnunum.

Þau sem eiga bókasafnskort hafa einnig ókeypis aðgang að Rafbókasafninu. Þar er að finna fjölda bókatitla og yfir 200 titla á vinsælum tímaritum.

Bókasöfn á átta mismunandi stöðum

Borgarbókasafnið er á átta stöðum víðsvegar um Reykjavík. Hægt er að skila bókum og öðrum safnkosti á hvaða safnstað Borgarbókasafnsins sem er. Ekki þarf endilega að skila þar sem fengið var að láni. Safnstaðirnir eru eftirfarandi:

Grófin
Kringlan
Sólheimar
Spöngin
Gerðuberg
Úlfarsárdalur
Árbær
Kléberg (Inngangur bakatil, nær sjónum)

Börn fá ókeypis bókasafnskort.