Hoppa í meginmál
Persónuleg málefni

Hjónaband, sambúð og skilnaður

Hjónaband er fyrst og fremst borgaraleg stofnun. Hjón eru jafn rétthá í hjónabandi og hafa sömu skyldur gagnvart hvort öðru og börnum sínum.

Hjónabönd samkynhneigðra á Íslandi eru lögleg. Hjón geta sótt um skilnað, sameiginlega eða í sitthvoru lagi.

Hjónaband

Hjónaband er fyrst og fremst borgaraleg stofnun. Hjúskaparlögin skilgreina þetta viðurkennda sambúðarform þar sem fram kemur hverjir mega ganga í hjónaband og hvaða skilyrði skuli setja fyrir hjúskap. Lesa má meira um helstu réttindi og skyldur í hjónabandi á island.is.

Tveir einstaklingar mega ganga í hjúskap þegar þeir hafa náð 18 ára aldri. Ef annar eða báðir þeirra sem hyggjast ganga í hjónaband eru yngri en 18 ára getur dómsmálaráðuneytið veitt þeim leyfi til hjúskapar, ef forsjárforeldrar hafa látið í té afstöðu sína til hjónabandsins.

Þeir sem hafa leyfi til hjónavígslu eru prestar, forstöðumenn trúfélaga og lífsskoðunarfélaga, sýslumenn og fulltrúar þeirra. Hjónaband setur báðum aðilum skyldur á herðar meðan hjónabandið er í gildi, hvort sem þeir búa saman eða ekki og jafnvel þótt þeir séu skildir að borði og sæng.

Í hjónaböndum á Íslandi hafa konur og karlar sama rétt. Ábyrgð þeirra gagnvart börnum sínum og öðrum þáttum sem tengjast hjónabandinu eru einnig hin sama.

Ef maki deyr í hjónabandi, erfir hinn makinn hluta búsins. Íslensk lög heimila eftirlifandi maka almennt að sitja í óskiptu búi. Þetta gerir ekkju/ekli kleift að halda áfram að búa á hjúskaparheimilinu eftir að maki er fallinn frá.

Sambúð

Fólk sem býr í óvígðri sambúð ber ekki framfærsluskyldu gagnvart hvort öðru og eru ekki lögerfingjar hvers annars. Hægt er að skrá sambúðina hjá Þjóðskrá.

Skráning á sambúð getur haft áhrif á réttindi viðkomandi aðila hvað varðar almannatryggingar, vinnumarkaðsrétt, félagsþjónustu sveitarfélaga og skattamál. Þegar sambúð er skráð öðlast aðilar skýrari stöðu fyrir lögum en þeir sem ekki eru skráðir í sambúð. Þeir njóta hins vegar ekki sömu réttinda og hjón.

Félagsleg réttindi sambúðaraðila geta verið háð því hvort þeir eigi börn, hversu lengi þeir hafi verið í sambúð og hvort sambúð þeirra sé skráð hjá Þjóðskrá eða ekki.

Skilnaður

Annað hvort hjóna getur sótt um skilnað, óháð því hvort hinn makinn samþykkir skilnaðinn eða ekki. Fyrsta skrefið er að leggja fram beiðni um skilnað, sem kallast lögskilnaður, á skrifstofu sýslumanns. Umsókn á netinu má finna hér. Einnig er hægt að panta tíma hjá sýslumanni til að fá aðstoð.

Þegar beiðni um skilnað hefur verið lögð fram tekur ferlið venjulega um eitt ár þar til skilnaður er veittur. Sýslumaður gefur út leyfi fyrir skilnaði að borði og sæng þegar hvort hjóna undirritar skriflegan samning um skiptingu skulda og eigna. Hjón eiga á rétt á skilnaði þegar eitt ár er liðið frá því að leyfi til skilnaðar að borði og sæng var gefið út eða dómur var kveðinn upp fyrir dómstólum.

Ef bæði hjón eru sammála um að leita skilnaðar eiga þau rétt á skilnaði þegar sex mánuðir eru liðnir frá því leyfi var veitt fyrir skilnaði að borði og sæng eða frá því dómur var kveðinn upp.

Þegar skilnaður er veittur er eignum skipt jafnt á milli hjóna að undanskildum aðskildum einstökum eignum sem löglega eru tilgreindar sem eignir annars makans. Þetta eru til dæmis séreignir sem hafa komið til vegna ákvæða laga, eða voru tilgreindar sem séreignir í samning sem kallast kaupmáli.

Giftir bera ekki ábyrgð á skuldum maka síns nema þeir hafi samþykkt það skriflega. Undantekningar frá þessu eru skattaskuldir, skuldir vegna framfærslu heimilis, þarfir barna eða húsaleigu.

Breytingar á fjárhagslegum aðstæðum annars aðilans geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir hinn. Lestu meira hér um þetta hér: Fjármál hjóna, almennar upplýsingar um réttindi.

Ef maki hefur haldið framhjá eða beitt maka sinn eða börn líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi, er hægt að fara fram á skilnað tafarlaust.

Jafnréttisstofa gefur út bæklinginn Réttur þinn en í honum er að finna mikilvægar upplýsingar fyrir innflytjendur á Íslandi. Bæklingurinn er gefinn út á ýmsum tungumálum:

Íslenska

Enska

Pólska

Spænska

Tælenska

Rússneska

Arabíska

Franska

Í bæklingnum er fjallað um réttindi fólks á Íslandi þegar kemur að nánum samböndum og samskiptum, til dæmis hjónaband, sambúð, skilnað og sambúðarslit, þungun, mæðravernd, þungunarrof, forsjá barna, umgengnisrétt, ofbeldi í nánum samböndum, mansal, vændi, kærur til lögreglu, gjafsókn og dvalarleyfi. Þar má einnig finna vísanir í frekari upplýsingar um aðstoð, svo sem símanúmer, heimilisföng og heimasíður ýmissa stofnana og félagasamtaka.

Skilnaðarferlið

Í umsókn um skilnað til sýslumanns þarf meðal annars að fjalla um eftirfarandi atriði:

  • Grundvöllur skilnaðar.
  • Fyrirkomulag forsjár, lögheimili og meðlag með börnum (ef einhver eru).
  • Ákvörðun um skiptingu eigna og skulda.
  • Ákvörðun um hvort greiða skuli lífeyri.
  • Mælt er með því að skila inn sáttavottorði frá presti eða forstöðumanni trú- eða lífsskoðunarfélags og samningi um fjárskipti (Ef hvorki sáttavottorð né fjárskiptasamningur liggur fyrir á þessu stigi er hægt að skila því síðar.)

Skilnaðarbeiðandi fyllir út umsóknina og sendir til sýslumanns sem leggur skilnaðarkröfuna fram fyrir hinn makann og býður málsaðilum í viðtal. Hægt er að mæta í viðtalið í sitthvoru lagi. Viðtalið er tekið hjá sýslumanni að lögfræðingi viðstöddum. Ef valið er að fara í viðtal í sitthvoru lagi mætir annar makinn í viðtal og hinn er kallaður inn síðar.

Hægt er að óska eftir því að viðtalið fari fram á ensku, en ef túlks er þörf þarf sá sem óskar eftir túlki að útvega hann sjálfur.

Í viðtalinu ræða makar málefni sem tekin eru fyrir í umsókn um skilnað. Ef samkomulagi er náð er leyfi til skilnaðar venjulega gefið út samdægurs.

Þegar skilnaður er veittur sendir sýslumaður Þjóðskrá tilkynningu um skilnað, breytingu á heimilisföngum beggja aðila ef þau liggja fyrir, fyrirkomulag forsjár og lögheimili barns/barna.

Ef skilnaður er veittur fyrir dómi sendir dómurinn tilkynningu um skilnaðinn til Þjóðskrár Íslands. Sama gildir um forsjá og lögheimili barna sem úrskurðað er fyrir dómi.

Það getur þurft að tilkynna öðrum stofnunum sérstaklega um breytingu á hjúskaparstöðu, til dæmis vegna greiðslu bóta eða lífeyris sem breytist eftir hjúskaparstöðu.

Áhrif skilnaðar að borði og sæng falla niður ef hjón flytja aftur saman í lengri tíma en þann sem með sanni má telja nauðsynlegur, einkum vegna flutnings og öflunar nýs húsnæðis. Réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng falla einnig niður ef makar hefja sambúð síðar, nema meðan reynt er í stuttan tíma til að hefja sameiningu að nýju.

Gagnlegir hlekkir

Á Íslandi eru hjón jafnrétthá í hjónabandi og bera jafnar skyldur gagnvart hvort öðru og börnum sínum.