Hoppa í meginmál
Húsnæði

Leiga

Á Íslandi er almennur skortur á íbúðarhúsnæði í mörgum landshlutum um þessar mundir. Því getur verið krefjandi (en þó ekki ómögulegt!) að finna húsnæði sem hentar þínum þörfum á viðráðanlegu verði.

Í þessum hluta má finna töluvert af upplýsingum sem gagnast geta í leitinni að húsnæði, meða annars hvar hægt er að leita að leiguhúsnæði og hvernig má kynna sig sem eftirsóknarverðan leigjanda.

Almennt um leiguhúsnæði

Algengasta leiðin til að leigja hér á landi er að leigja húsnæði í einkaeigu. Þú getur sótt um félagslegt húsnæði í þínu sveitarfélagi, en það er skortur á félagslegu húsnæði í mörgum sveitarfélögum og biðlistar geta verið langir.

Þegar þú hefur fundið húsnæði þar sem þú vilt búa þá er næsta skref að skrifa undir leigusamning og greiða tryggingu. Ráðlegt er með að kynna sér þær skyldur sem fylgja því að leigja. Leigusala ber að skila leigjanda tryggingu sem lögð var fram í upphafi leigutímans innan fjögurra vikna eftir að leigjandi skilar lyklum, ef ekki hefur verið tilkynnt um tjón á leiguhúsnæðinu.

Leitin að leiguhúsnæði

Leiguhúsnæði eru venjulega auglýst á netinu. Fólk í húsnæðisleit utan höfuðborgarsvæðisins er bent á að leita sér upplýsinga á skrifstofum síns sveitarfélags. Facebook er mikið notuð á Íslandi til að auglýsa íbúðir til leigu. Hægt er að nálgast marga leiguhópa með því að leita í orðinu „Leiga“ eða „Rent“ á Facebook.

Leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu

Ein helsta áskorunin við að búa á Íslandi er að finna leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði, og þetta á við um bæði Íslendinga og útlendinga. Góð til til að finna húsnæði til leigu er að biðja fólkið í kringum þig um aðstoð. Þetta gætu verið samstarfsmenn þínir eða erlendir vinir sem hafa búið hér lengur en þú.

Hér eru nokkrar vefsíður og Facebook-hópar fyrir leiguhúsnæði (þeir hópar eru venjulega með lýsingar bæði á íslensku og ensku).

Póstnúmerið 101 er miðbær Reykjavíkur. Póstnúmer 107 og 105 eru að mestu leyti í göngufæri frá miðbænum. Póstnúmer 103, 104, 108 eru aðeins lengra í burtu í austurbænum en aðgengileg með almenningssamgöngum eða hjóli. Póstnúmer 109, 110, 112 og 113 eru úthverfin, einnig aðgengileg með hjóli eða strætó.

Þegar kemur að höfuðborgarsvæðinu býr umtalsverður fjöldi fólks í sveitarfélögunum í kringum Reykjavík – Garðabæ, Kópavogi, Hafnarfirði og Mosfellsbæ. Þessi svæði eru vel tengd miðbænum og leiga þar er stundum aðeins ódýrari. Þessi svæði eru oft vinsæl meðal fjölskyldna, þar sem þú gætir fengið stærra hús fyrir svipað verð, getur búið í rólegu hverfi nær náttúrunni og ert samt ekki langt frá höfuðborginni. Þessi sveitarfélög gætu hentar þér ef þú ert tilbúin/n að eyða lengri tíma í almenningssamgöngum til og frá vinnu eða ef þú átt bíl.

Sumir sem vinna á höfuðborgarsvæðinu ferðast til bæja lengra í burtu með einkabíl. Þar á meðal eru bæirnir á Reykjanesskaga, Akranes, Hveragerði og Selfoss, öll í um það bil klukkustundar akstursfjarlægð.

Facebook hópar:

Leiga

Leiga í Reykjavík

Leiga Reykjavík 101.105.107

Leiga á Íslandi – Rent in Iceland

Leiga Reykjavík, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður

Leiga 101 Reykjavík

Rent in Iceland

101 Rent

Rent

Rent in Hafnarfjörður, Garðabær or Kópavogur

Ef þú sérð húsnæði sem þér líst vel á er ráðlegt að senda stutt skilaboð til leigusala þar sem þú tekur fram nafn þitt, símanúmer og netfang ásamt stuttri greinargerð um þig og fjölskyldu þína (ef við á). Hér er gott að taka fram afhverju þú ert eftirsóknarverður leigjandi, til dæmis að þú hafir reglulegar tekjur og munir gæta þess að greiða leigu á réttum tíma og ganga vel um íbúðina. Einnig er vert að taka fram ef þú ert með meðmæli frá fyrri leigusala. Hafðu í huga að líklega eru margir aðrir að sýna áhuga á að leigja íbúðina og hún gæti verið farin af markaðnum innan örfárra daga. Því skiptir máli að bregðast hratt við og koma vel fyrir til að auka möguleikana á að finna leiguíbúð.

Leigjendaaðstoð

Vefsíðan leigjendur.is býður upp á gagnlegar upplýsingar um leigumál á þremur tungumálum: Enska – PólskaÍslenska.

Vefurinn er í umsjón Neytendasamtaka Íslands og veitir upplýsingar um leigusamninga, tryggingu og ástand leiguhúsnæðis svo nokkur dæmi séu nefnd.

Ef þú átt í ágreiningi við leigusala þinn eða ert í vafa um rétt þinn sem leigjandi geturðu haft samband við Leigjendaaðstoðina. Neytendasamtök Íslands reka Leigjendaaðstoðina samkvæmt þjónustusamningi við félags-og vinnumarkaðsráðuneytið. Hlutverk Leigjendaaðstoðarinnar er að veita leigjendum upplýsingar, aðstoð og ráðgjöf um mál tengd húsaleigu þeim að kostnaðarlausu.

Lögfræðiteymi Leigjendaaðstoðarinnar svarar spurningum og veitir ráðgjöf þegar leigjendur þurfa að leita réttar síns. Ef ekki næst samkomulag milli leigjanda og leigusala getur leigjandi fengið aðstoð við næstu skref, til dæmis við að fara með málið fyrir kærunefnd húsamála.

Leigjendur geta komið með allar spurningar tengdar leigu til Leigjendaaðstoðarinnar, þar á meðal spurningar varðandi undirritun leigusamnings, réttindi og skyldur á leigutímanum og uppgjör við lok leigutíma.

Einnig má skoða svör við algengum spurningum á vefsíðunni þeirra.

Samtök leigjenda á Íslandi eru sjálfstæð félagasamtök sem hafa það að markmiði að bæta réttindi og hag leigjenda. Þau knýja á um bætt lög um réttindi leigjenda, lægri húsaleigu og að nægt famboð sé af leiguhúsnæði. Félagsfók getur fengið aðstoð í málum tengdum leigu og húsnæði.

Húsaleigusamningur

Húsaleigusamningur er samningur sem kveður á um afnot leigutaka á eign leigusala í tiltekinn tíma, skemmri eða lengri. Hann segir einnig til um, og tryggir réttindi og skyldur, leigusala og leigutaka.

Síðan í byrjun árs 2023, hefur verið hægt að skrá leigusamninga rafrænt. Að skrá þá rafrænt er skylda fyrir þá sem hafa atvinnu af útleigu íbúðarhúsnæðis. Svo er rafræn skráning eitt af skilyrðunum fyrir því að hægt sé að sækja um húsnæðisbætur.

Það er auðvelt að skrá húsaleigusamning rafrænt. Leigutaki getur gert það sjálfur ef leigusali gerir það ekki.

Það hefur ýmsa kosti í för með sér að skrá leigusamning rafrænt. Undirskrift er gerð rafrænt svo þeir sem eiga að skrifa undir þurfa ekki að vera á sama stað við undirritun. Það er ekki þörf á vottum og ekki þarf að þinglýsa samningum sérstaklega til þess að geta sótt um húsnæðisbætur. Rafræna ferlið er almennt öruggara auk þess að pappír og jafnvel tími sparast.

Leigursamningar eru til á ýmsum tungumálum:

English

Polish

Ukrainian

Icelandic

Leigursamningur þarf að vera í tveimur eins eintökum, annað fyrir leigutaka og hitt fyrir leigusala.

Ef húsaleigusamningi hefur verið þinglýst, þarf leigutaki að láta aflétta þinglýsingunni að leigutíma loknum. Ef þetta hefur ekki verið gert innan við viku frá lokum samningstíma, þarf leigusalinn að láta aflétta.

Hægt er að þinglýsa húsaleigusamningum hjá Sýslumanni.

Leiguverð

Húsaleiga getur ýmist verið föst krónutala, sem þýðir að henni er ekki hægt að breyta fyrr en samningur rennur út eða er sagt upp, eða hún getur verið tengd ákveðinni vísitölu. Algengast er að leiga sé tengd vísitölu neysluverðs sem þýðir að hún hækkar eða lækkar í hverjum mánuði í samræmi við neysluvísitölu.

Stundum eru reikningar innifaldir í leigu en algengara er að leigjendur borgi sjálfir fyrir rafmagn og hita. Ráðlegt er að athuga hvort hússjóður sé innifalinn í leigunni, sé það ekki skýrt tekið fram.

Athugaðu að greiða aldrei neina fjárupphæð án þess að sjá húsnæðið í eigin persónu eða í gegnum vefmyndavél. Ef leigusalinn segist ekki geta sýnt þér húsnæðið gæti það verið vísbending um fjársvindl. Slíkt er ekki áhættunnar virði.

Húsaleiguábyrgð

Húsaleiguábyrgð er fjárupphæð eða ígildi hennar sem leigusala er veittur til sönnunar um ásetning leigjanda um að flytja inn, umgangast húsnæðið vel og greiða leigu og reikninga á réttum tíma. Húsaleigusamningur skal taka fram hversu há upphæðin er og á hvaða máta hún er greidd. Innborgunin er mismunandi eftir leiguhúsnæði og jafngildir yfirleitt eins til þriggja mánaða leigu.

Áður en leiguhúsnæði er afhent getur leigusali krafist þess að leigjandi leggi fram tryggingu þess að hann muni efna sínar skyldur í leigusamningnum, svo sem greiðslu mánaðarlegrar leigu og bætur fyrir hugsanlegu tjóni sem leigjandi ber ábyrgð á.

Sé tryggingar krafist er mælt með að greiða hana í gegnum eitt af eftirfarandi:

  1. Ábyrgð frá banka eða sambærilegum aðila (bankaábyrgð).
  2. Persónuleg ábyrgð eins eða fleiri þriðja aðila.
  3. Vátrygging frá tryggingafélagi sem tekur til leigugreiðslna og skila á leiguhúsnæðis í góðu ástandi.
  4. Innborgun sem leigjandi greiðir til leigusala. Leigusali skal geyma þetta fé á sérmerktum innlánsreikningi í banka eða sparisjóði sem ber hámarksvexti til greiðsludags og skulu greitt leigjanda án tafar ef ekki reynist þörf á að draga innborgun. Leigusala er óheimilt að ráðstafa fénu né draga frá því án samþykkis leigjanda nema niðurstaða liggi fyrir um bótaskyldu leigjanda. Leigusala er þó heimilt að nota féð til að greiða eftirstöðvar leigu, bæði á leigutíma og í lok leigutíma.
  5. Greiðsla í samtryggingarsjóð leigusala sem leigusali er aðili að sem lögaðili sem leigir út húsnæði í atvinnuskyni. Þennan sjóð má eingöngu nota til að mæta tjóni sem hlýst af vanskilum á leigusamningum leigusala. Leigusali skal halda samtryggingarsjóðnum aðskildum frá öðrum þáttum starfsemi hans.
  6. Innborgun af annarri gerð en talin eru fram hér sem leigjandi leggur til og leigusali tekur gilt og fullnægjandi.

Leigusali getur valið á milli tryggingu samkvæmt 1.-6. lið en leigjandi á rétt á að neita að leggja fram peningatryggingu samkvæmt. 4. lið enda bjóði hann annars konar tryggingu í staðinn sem leigusali telur fullnægjandi.

Skyldur og réttindi leigjenda

Leigjendur eiga rétt á:

  • Skriflegum leigusamning sem er sanngjarn og í samræmi við lög.
  • Að vita hver leigusali þeirra er.
  • Að njóta næðis í leiguhúsnæðinu.
  • Að búa í eign sem er örugg og í góðu ástandi.
  • Að vera vernduð gegn ósanngjörnum brottrekstri og ósanngjarnri leigu.
  • Að fá tryggingafé sitt endurgreitt innan fjögurra vikna eftir að lyklum að húsnæðinu er skilað til leigusala, að því gefnu að ekki komi til ógreidd leiga eða skaðabætur.

Leigjendur bera ábyrgð á að:

  • Greiða alltaf umsamda leigu á umsömdum degi. Þó ágreiningur komi upp eða eignin þarfnist viðgerðar, þá þarf samt að borga leiguna. Annað telst brot á leigusamning og hefur í för með sér hættu á málaferlum.
  • Fara vel með eignina.
  • Greiða reikninga eins og samið er við leigusala.
  • Veita leigusala aðgang að eigninni þegar þess er óskað. Leigusali verður að láta vita og sammælast við leigjanda um tíma dags til að heimsækja eignina eða framkvæma viðgerðir. Leigjandi á rétt á að vera í íbúðinni þegar leigusali eða viðgerðarmenn eru staddir þar nema um annað sé samið.
  • Borga fyrir viðgerðir ef leigjandi hefur valdið tjóni – þetta felur einnig í sér skemmdir sem gestir leigjanda hafa valdið.
  • Ekki framleigja húsnæðið nema leigusamningur eða leigusali leyfi það.

Ef leigjandi brýtur í bága við eitthvað af ofangreindum atriðum hefur leigusali rétt á að stofna til málaferla til að vísa honum út.

Skyldur leigusala

Helstu skyldur leigusala eru að:

  • Útvega skriflegan leigusamning.
  • Hafa umsjón með eigninni og sinna viðhaldi svo hún sé í góðu ástandi.
  • Láta vita og fá samþykki leigjenda áður en leigusali eða einhver á hans vegum heimsækir eignina.
  • Fylgja lögum og reglum ef leigjandi á yfirgefa húsnæðið, hvort sem um er að ræða uppsögn leigusamnings eða riftun.

Skemmdir á leiguhúsnæði

Ætlast er til að leigjendur fari vel með leiguhúsnæði og noti það í samræmi við þá skilmála sem samið var um. Verði leiguhúsnæði fyrir tjóni af völdum leigjanda, heimilismanna hans eða gesta skal leigjandi gera ráðstafanir til að bæta tjónið eins fljótt og auðið er. Vanræki leigjandi þessa skyldu getur leigusali látið gera viðgerðir á kostnað leigjanda.

Áður en til þess kemur skal leigusali þó tilkynna leigjanda skriflega um mat sitt á tjóninu, gera grein fyrir nauðsynlegum úrbótum og gefa leigjanda fjórar vikur frá móttöku slíks mats til að ljúka viðgerð. Áður en leigusali hefst handa við viðgerðir þarf hann að leita umsagnar skoðunarmanns og samþykkis hans fyrir útgjöldum eftir að verki er lokið.

Sameign og húsfélög

Í fjölbýlishúsum eru oft húsfélög sem taka ákvarðanir um húsið á formlegum fundum, þar með talið viðgerðir. Sum félög ráða fyrirtæki til að halda utan um sameiginleg mál en önnur reka húsfélagið sjálf. Leigjendur geta óskað eftir að sitja þessa fundi en geta ekki greitt atkvæði.

Í fjölbýli má oft finna rými sem er sameiginlegt með öðrum íbúum hússins sem kallað er sameign. Þetta gæti til dæmis falið í sér þvottahús og stigagang. Í sumum fjölbýlishúsum er gert ráð fyrir að íbúar skiptist á að þrífa sameiginlegt rými ef húsfélagið hefur ákveðið slíkt fyrirkomulag. Ef gert er ráð fyrir að leigjandi taki þátt í slíkum verkum skal þess getið í leigusamningi.

Uppsögn leigusamnings

Báðir aðilar geta sagt upp ótímabundnum leigusamning. Uppsögn skal vera skrifleg og send á sannanlegan hátt.

Uppsagnarfrestur ótímabundins leigusamnings skal vera:

  • Einn mánuður fyrir geymsluskúra, óháð því í hvaða tilgangi þeir eru notaðir.
  • Þrír mánuðir fyrir eins manns herbergi í sameiginlegu húsnæði.
  • Sex mánuðir fyrir íbúðarhúsnæði (sem ekki er deilt með öðrum).
  • Sex mánuðir fyrir atvinnuhúsnæði fyrstu fimm ár leigutímans, níu mánuðir næstu fimm árin þar á eftir og síðan eitt ár eftir tíu ára leigutíma.

Ef um tímabundinn leigusamning er að ræða fellur leigusamningur úr gildi eftir síðasta dag án sérstaks fyrirvara. Þó má samþykkja að slíkum leigusamningi megi segja upp vegna sérstakra ástæðna, atvika eða aðstæðna. Þessar sérstakar ástæður, atburðir eða aðstæður þurfa að koma fram í leigusamningi og geta ekki verið sérstakar ástæður sem þegar er getið um í húsaleigulögum. Ef þetta er raunin skal gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera að minnsta kosti þrír mánuðir.

Jafnframt getur leigusali, ef um er að ræða lögaðila sem rekinn er án hagnaðarsjónarmiða, sagt upp leigusamningi sem gerður hefur verið til ákveðins tíma með þriggja mánaða fyrirvara þegar leigjandi uppfyllir ekki lengur þau skilyrði sem leigusali setur fyrir útleigu. Þessi skilyrði þurfa að koma fram í leigusamningi eða geta átt við þegar leigjandi veitir ekki nauðsynlegar upplýsingar til að sannreyna að hann uppfylli skilyrðin. Slíkar uppsagnir skulu vera skriflegar og tilgreina ástæðu uppsagnar.

Gagnlegir hlekkir

Þú getur sótt um félagslegt húsnæði í þínu sveitarfélagi, en það er skortur á félagslegu húsnæði í mörgum sveitarfélögum og biðlistar geta verið langir.